Íslenski boltinn

Yfirlýsing frá KSÍ: KSÍ mun gera FIFA og UEFA viðvart um mál FFR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Knattspyrnusamband Íslands stendur fast á sinni ákvörðun um að vísa FFR úr Íslandsmótinu en Lettinn Krisjanis Klavins, formaður FFR, er afar ósáttur við vinnubrögð KSÍ og hefur nú falið lögmanni sínum að leita réttar síns.

KSÍ hefur í framhaldinu sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu en þar kemur meðal annars fram að KSÍ mun geta FIFA og UEFA viðvart um mál FFR og að forráðamenn FFR hafi reynt að villa starfsmönnum KSÍ sýn

Yfirlýsing KSÍ vegna málefna FFR

Knattspyrnusamband Íslands heldur mót fyrir knattspyrnufélög á Íslandi og rétt til þátttöku hafa öll félög innan vébanda ÍSÍ og UMFÍ. KSÍ er aðili að UEFA og FIFA og hefur sem slíkt umboð til að skipuleggja keppni á Íslandi en getur ekki opnað mót sín fyrir erlend félög. Það gerðist nú í fyrsta sinni í sögu KSÍ að erlendur aðili vildi inngöngu í mót á vegum KSÍ einungis með erlenda leikmenn. Til skráningar var notaður íslenskur leppur til að koma fram fyrir hönd félags sem stofna átti innan ÍSÍ og villa starfsmönnum KSÍ þannig sýn. Það eitt og sér var óheiðarlegt og bar ekki vott um fögur fyrirheit. Eðlilegt hlýtur að teljast að lettneskur aðili sem stofnar félag sem nær eingöngu skyldi skipað lettneskum leikmönnum skrái félag sitt til leiks í sínu heimalandi.

Því miður hafa öfl svika og blekkinga skotið upp kollinum í íþróttaheiminum síðastliðin ár og nauðsynlegt fyrir yfirvöld íþróttamála að halda vöku sinni og standa vörð um heiðarlegan leik. Það mun KSÍ leitast við að gera nú sem endranær.

KSÍ mun standa fyrir ákvörðunum sínum á hvaða vettvangi sem þurfa þykir og gera FIFA og UEFA viðvart um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×