Viðskipti erlent

Jamie Dimon: Svona á ekki að stunda viðskipti

Magnús Halldórsson skrifar
Jamie Dimon, forstjóri JP Morgan Chase.
Jamie Dimon, forstjóri JP Morgan Chase.
„Svona á ekki að stunda viðskipti," sagði Jamie Dimon, forstjóri bandaríska bankans JP Morgan Chase, í viðtali við New York Times í dag, og vitnaði til viðskipta bankans með fyrirtækjaskuldabréf sem bankinn tapaði tveimur milljörðum dala á.

Bankinn veðjaði á að bandarískur efnahagur myndi rétta hraðar úr kútnum en hann hefur gert, og var mikil áhætta tekin í þeim viðskiptum. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs bókfærði bankinn tveggja milljarða dala tap, eins og áður segir, eða sem nemur um 250 milljörðum króna. Tap bankans á fyrsta ársfjórðungi þessa árs er um einn milljarður dala eða sem nemur 125 milljörðum króna.

Markaðsvirði JP Morgan hefur fallið um rúmlega 10 prósent frá því tilkynnt var um tapið, og hefur hópur stórra hluthafa óskað eftir auka hluthafafundi með stjórnendum sínum, þar sem svara er krafist um hvernig í ósköpunum þetta gat gerst.

Jamie Dimon, hinn virti forstjóri JP Morgan, er nú undir miklum þrýstingi, samkvæmt frétt Wall Street Journal. "Ég skil óánægjuna vel. Það voru gerð mistök sem eru óafsakanleg, en við munum reyna að bæta fyrir þau með því að gera ekki sömu mistökin aftur," sagði Dimon á blaðamannafundi við lokun markað í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×