Íslenski boltinn

Félagi vísað úr íslensku 3. deildinni - grunur um erlent veðmálabrask

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vefsíðan Fótbolti.net segir frá því í dag að FFR, Fótboltafélaginu Fjólunni Reykjavík, hafi verið vísað úr keppni í þriðju deild karla og bikarkeppni KSÍ. Íslenskir aðilar stofnuðu félagið í vetur en fljótlega tóku erlendir aðilar við stjórn félagsins. Grunur er um að hér sér veðmálabrask í gangi og þykir svipa til máls sem kom upp í Finnlandi fyrir nokkrum árum.

„Samkvæmt heimildum Fótbolta.net eru aðilarnir í stjórn FFR frá Lettlandi en þeir voru byrjaðir að undirbúa félagaskipti á leikmönnum þaðan til Íslands og þeir leikmenn áttu að skipa lið FFR í þriðju deildinni í sumar.

Málið þykir lykta mjög af veðmálabraski og það þykir svipa til máls sem kom upp í Finnlandi fyrir nokkrum árum. Þá keyptu aðilar lið og skiptu öllum leikmönnum út fyrir nýja erlenda leikmenn.Háum fjárhæðum var síðan veðjað á óvænt tap hjá liðinu í finnsku deildinni. Liðið tapaði leik sínum og í kjölfarið létu allir stjórnarmenn sig hverfa og hafa ekki sést síðan þá," segir í fréttinni á Fótbolta.net en hana má finna alla hér.

FFR átti að leika í C-riðli í 3. deildinni í sumar en þar sem liði fær ekki þátttökurétt þá þarf að spila þrefalda umferð í þeim riðli í stað tvöfaldar. FFR átti einnig að mæta Fáki í fyrstu umferð bikarsins en Fákur fer núna beint í aðra umferðina þar sem liðið mætir Víkingi R.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×