Innlent

Efast um afleiðingar hrunsins ef ráðherrar hefðu fundað

Höskuldur Kári Schram skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, efast um að bankahrunið hefði skollið á með þeim hætti sem það gerði ef ráðherrar hefðu fundað reglulega um stöðu efnahagsmála í aðdraganda hrunsins. Þetta kom fram í máli Jóhönnu á Alþingi í dag.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar spurði Jóhönnu á Alþingi í dag út í verklag ríkisstjórnarinnar varðandi kynningu á málum og vísuðu meðal annars í niðurstöðu Landsdóms í þessu samhengi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður framsóknarflokks, spurði hvernig kynningu á Icesave samkomulaginu var háttað innan ríkisstjórnarinnar árið 2009.

Jóhanna svaraði því til að ekkert mál hafi verið rætt jafn mikið innan ríkisstjórnarinnar og Icesave málið. Þá sagði hún að verklag ríkisstjórnarinarn hefði tekið töluverðum breytingum eftir bankahrun og í því samhengi hafi verið tekið tillit þeirrar gagnrýni sem kom fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þannig séu nú starfandi fjórar ráðherranefndir sem funda reglulega.

„Sú sem oftast fundar er ráðherranefnd um efnahagsmál. Sem fundar reglulega, einu sinni í viku um stöðu efnahagsmála, fjármálamarkaði, alla hættur sem hugsanlega steðja að. Fyrir eru kallaðir bankastjóri seðlabankans og FME reglulega ef þörf þykir. Ef að sú nefnd hefði verið til staðar og unnið eins og er gert í ráðherranefnd á undanförnum tveimur til þremur árum, þá vil ég leyfa mér að efa að hrunið hefði skollið á með þeim hætti sem að það gerði," sagði Jóhanna Sigurðardóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×