Handbolti

Patrekur tekur við Val | Fer eflaust aftur út síðar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mynd/Stefán
Patrekur Jóhannesson skrifaði í dag undir tveggja ára samning við N1-deildarlið Vals. Patrekur tekur við liðinu af Óskari Bjarna Óskarssyni sem mun þjálfa í Danmörku næsta vetur.

"Valur sýndi mér áhuga og við fórum í kjölfarið í viðræður. Mér leist vel á félagið enda stór klúbbur með frábæra umgjörð og verkefnið spennandi. Þess vegna ákvað ég að taka tilboði þeirra," sagði Patrekur við Vísi á blaðamannafundinum í kvöld en var hann með fleiri járn í eldinum?

"Nei, ekki þannig séð. Það voru einhverjar fyrirspurnir að utan en þar sem stefnan hjá mér núna er ekki að fara út þá skoðaði ég það ekkert. Ég er þess utan landsliðsþjálfari Austurríkis og verð það áfram. Þeir höfðu ekkert út á það að setja að ég myndi þjálfa lið hér heima samhliða landsliðsþjálfuninni."

Patrekur þjálfaði síðast þýska félagið Emsdetten áður en hann kom heim. Hefur hann gefið það upp á bátinn að fara aftur út og þjálfa félagslið?

"Alls ekki. Ákvörðun fjölskyldunnar var að koma heim og leyfa börnunum að vera í skóla á Íslandi næstu árin. Ég fer eflaust aftur út seinna meir en ég er mjög sáttur í dag með Val og austurríska landsliðið."

Valsmönnum gekk ekki vel í vetur og liðið komst ekki í úrslitakeppnina. Hvað ætlar Patrekur að gera með þetta lið?

"Það á eftir að koma í ljós. Ég ætla að vinna vel og leggja mikið á mig. Auðvitað er markmiðið að komast í úrslitakeppnina og það verður markmið okkar. Það mun taka tíma að púsla þessu saman. Mitt markmið er að koma Val á þann stað sem liðið á heima."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×