Enski boltinn

Terry á erfitt með andardrátt í leikjum Chelsea

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Terry klappar fyrir áhorfendum er hann gengur af velli á Stamford Bridge í gærkvöldi.
Terry klappar fyrir áhorfendum er hann gengur af velli á Stamford Bridge í gærkvöldi. Nordic Photos / Getty
John Terry, fyrirliði enska úrvalsdeildarliðsins Chelsea, segist eiga erfitt með andardrátt á vellinum og óttast að vera með brákuð rifbein.

Terry, sem var skipt af velli á 60. mínútu í 2-1 sigri Chelsea á Benfica í Meistaradeild Evrópu í gærkvöldi, mun gangast undir frekari rannsóknir í dag.

„Ég gat ekki andað og mér fannst brjóstkassinn vera að lokast. Mér leið illa á vellinum, sérstaklega í fyrri hálfleik," sagði Terry sem segist þó vera klár í að spila þrátt fyrir sársaukann.

Terry varð fyrir meiðslunum í fyrri leiknum gegn Benfica í Portúgal í síðustu viku. Hann lauk þó leik og spilaði einnig 90 mínútur gegn Aston Villa um liðna helgi.

„Ég veit ekki hvað ég verð frá lengi. Ég fer í skoðun á morgun (í dag) og metum þetta að henni lokinni. Þetta er hrikalegt," sagði Terry eftir leikinn gegn Benfica í gærkvöldi

Framundan er þétt dagskrá hjá Chelsea sem leikur átta leiki á 26 dögum. Þar af eru undanúrslitaleikirnir gegn Barcelona í Meistaradeildinni og gegn Tottenham í enska bikarnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×