Innlent

Hljóðupptökur úr Landsdómi verða gerðar opinberar

Dómarar Landsdóms.
Dómarar Landsdóms.
Samkvæmt ákvörðun Landsdóms og með samþykki málsaðila verður veittur aðgangur að hljóðritunum af munnlegum skýrslum ákærða og vitna, sem gefnar voru við aðalmeðferð málsins, svo og að hljóðritunum frá munnlegum flutningi þess. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsdómi.

Þá er því ljóst að það verði hægt að nálgast hljóðupptökur frá dómsmálinu á næstu vikum en hart hefur verið deilt um aðgang að hljóðritunum. En þetta er þó háð þeim skilyrðum að málsaðili samþykki birtingu þess.

Alls voru teknar skýrslur af 40 vitnum auk þess sem skýrsla var tvívegis tekin af Geir. Landsdómur skal kveða upp dóm í máli svo fljótt sem við verður komið samkvæmt lögum.

Á þessu stigi er ekki fært að áætla hvenær það muni gerast í þessu máli, en um það verður tilkynnt með nokkrum fyrirvara.

Stefnt er að því að opna heimasíðu fyrir Landsdóm fyrir lok þessa mánaðar, sem mun bera heitið www.landsdómur.is. Þar verða birtar úrlausnir, sem þegar hafa gengið í tengslum við fyrrnefnt mál, og verður dómur þar jafnframt birtur eftir að hann hefur verið kveðinn upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×