Samkvæmt nýjum upplýsingum sem frönsk yfirvöld hafa gefið út er ekki unnt að útiloka að PIP brjóstafyllingar sem framleiddar voru fyrir árið 2001 séu gallaðar. Íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa því ákveðið að fyrra tilboð stjórnvalda um heilbrigðisþjónustu við konur með PIP brjóstafyllingar taki til allra kvenna sem fengið hafa slíkar fyllingar frá því að byrjað var að framleiða þær árið 1992. Þetta kemur fram í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu.
Heilbrigðisyfirvöld hafa frá síðustu áramótum verið í beinum samskiptum við hlutaðeigandi yfirvöld og eftirlitsstofnanir í Evrópu og fylgst grannt með þróun mála varðandi PIP brjóstafyllingarnar. Hafa ákvarðanir hérlendra stjórnvalda verið endurskoðaðar eftir því sem nýjar upplýsingar hafa komið fram.
Ekki liggja fyrir að svo stöddu upplýsingar um fjölda kvenna hér á landi sem fengið hafa ígrædda PIP brjóstapúða á árunum 1992-2001. Velferðarráðuneytið, Embætti landlæknis og Lyfjastofnun munu á næstu dögum fara yfir málið og afla nauðsynlegra upplýsinga.
Innlent