Innlent

Eðlilegt að hafa leynd yfir starfi samráðshópsins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, ber vitni fyrir Landsdómi.
Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, ber vitni fyrir Landsdómi. mynd/ gva.
Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, segir eðlilegt að starf samráðshóps um fjármálastöðugleika hafi farið leynt. „Allur kvittur um að stjórnvöld hefðu ekki trú á tilteknum banka gat umsvifalaust haft þau áhrif að áhlaup yrði gert á banka,‟ sagði Björgvin fyrir Landsdómi í morgun. Hann bætti því við að menn hefðu óttast áhlaup sem enginn banki gæti staðist.

Eitt af því sem Geir Haarde er ákærður fyrir er að hafa vanrækt að gæta þess að störf og áherslur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað, sem stofnað var til á árinu 2006, væru markvissar og skiluðu tilætluðum árangri. Geir hafnaði þessum ákærulið fyrir dómi í gær, líkt og öðrum. Sagði hann að starf hópsins hefði verið markvisst.

„Ég held að tíminn hafi leitt það í ljós að það hafi verið mjög mikilvægt að hópurinn starfaði eins og hann gerði - ekki undir opnum tjöldum,‟ sagði Björgvin fyrir dómi í morgun. Það hefðu ekki mátt fréttast af mikilvægum frumvarpsdrögum sem hópurinn var að vinna. Til dæmis lög um innistæðutryggingar og fleira.

Ákvarðanir um að setja neyðarlögin voru teknar af ríkisstjórninni, sagði Björgvin. En hann bætti því við að þær ákvarðanir hefðu verið teknar á grundvelli starfs samráðshópsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×