Innlent

Davíð segist hafa fengið áhyggjur löngu fyrir fall bankanna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Mynd/GVA
Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, segist hafa haft áhyggjur af stöðu bankanna löngu áður en komið var fram á árið 2008. Ekki hafi allir verið sammála honum í fyrstu. Hann sagði að það sem hefði meðal annars valdið áhyggjum hans hafi verið hvernig fyrirtæki hafi verið keypt upp á ógnarhraða, fyrirtæki rekin ár eftir ár án þess að nokkur sýnilegur hagnaður væri af starfsemi þeirra og of mikið gert úr viðskiptavild þegar eignarstaða fyrirtækja var bókfærð.

Davíð sagði að félagar sínir í bankastjórn seðlabankans hefðu ekki alltaf verið sér sammála. „Áhyggjur mínar fóru mjög mjög vaxandi," sagði Davíð. Þegar komið hafi verið framundir á árinu 2007 hafi menn í Seðlabankanum verið orðnir sammála um margt.

Helgi Magnús Gunnarsson, varasaksóknari Alþingis, spurði Davíð hvort hann hefði einhvern tímann talið að það sem hefði haldið honum áhyggjum myndi leiða til falls bankanna. „Ég taldi og sagði frá því þegar fjármögnunarstíflan hafði staðið í nokkra mánuði að stæði þetta lengur en í tvo mánuði þá yrðu allir bankarnir komnir á höfuðið, " sagði Davíð fyrir Landsdómi. Þetta hafi hann meðal annars sagt á fundi með ráðherrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×