Innlent

Bankastjórarnir héldu að bankarnir myndu hrynja 2006

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Davíð Oddsson segist ekki hafa séð fyrir vandræðin 2006.
Davíð Oddsson segist ekki hafa séð fyrir vandræðin 2006. mynd/ Anton Brink
Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, hringdi í Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóra, á laugardegi sumarið 2006 vegna áhyggna bankastjóra viðskiptabankanna af því að bankarnir yrðu komnir á hausinn tveimur dögum seinna. Davíð greindi frá þessu í Landsdómi í dag.

Helgi Magnús Gunnarsson, varasaksóknari Alþingis, spurði Davíð að því hvernig minikreppan 2006 hefði blasað við honum. Davíð sagðist verða að viðurkenna að hann hafi ekki séð hana fyrir. „Ég var kominn upp í sumarbústað þegar Halldór Ásgrimsson hringdi í mig og sagði mér að bankastjórar teldu að bankarnir væru komnir höfuðið á mánudag," sagði Davíð.

Davíð sagðist hafa hitt Bjarna Ármannsson, þáverandi forstjóra Glitnis, og Halldór Kristjánsson, þáverandi bankastjóra Landsbankans, en rætt við Hreiðar Má Sigurðsson, forstjóra Kaupþings, í síma. Bankastjórarnir hafi lýst því yfir að þeir væru með tiltekna tegund af skuldabréfaflokkum sem þurfti að endurnýja en þeir gátu ekki.

„Við ákváðum þrátt fyrir þessa áhættu að bregðast ekki við. Þeir sem þurftu að endurnýja þessa lánaflokka hafi gert það. „Þetta varð ekki eins mikil krísa vegna þess að þá var engin alþjóðleg krísa," sagði Davíð. Hann sagði að um þetta leyti hafi verið settur af stað hópur um fjármálastöðugleika.

Davíð segist ekki hafa átt sæti í samráðshópnum. Hann sagði að sér hafi stundum ekki fundist starf samráðshópsins hafa verið nógu markvisst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×