Innlent

Allir sammála um að ógerlegt væri að minnka bankakerfið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vitnaleiðslur í Landsdómi hófust á því að Ingimundur Friðriksson fyrrverandi seðlabankastjóri gaf út skýrslu.
Vitnaleiðslur í Landsdómi hófust á því að Ingimundur Friðriksson fyrrverandi seðlabankastjóri gaf út skýrslu.
Ingimundur Friðriksson, fyrrverandi seðlabankastjóri, segir að hugmynd um að minnka bankakerfið hafi verið algerlega óraunhæf þegar komið var fram á árið 2008. Þetta sagði hann þegar Andri Árnason, verjandi Geirs, spurði hann hvort miklar umræður hefðu verið um þetta á því ári.

Í ákæru gegn Geir er honum meðal annars gefið að sök að hafa vanrækt að hafa frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins í að draga úr stærð íslenska bankakerfisins með því til að mynda að stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikninga sína eða að einhverrir þeirra flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi.

„Ég held að skilningur allra hafi verið sá sami á þessum tíma að það hafi verið ógerlegt,‟ sagði Ingimundur. Hann benti meðal annars á yfirlýsingar sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á þessum tíma sem töldu sumarið 2008 að það væri æskilegt að bankakerfið myndi minnka mjög mikið en það væri ógerlegt á þessum tíma. „Þetta var efni sem kom upp í viðræðum við alla bankana á þessum tíma. Það höfðu allir skilning á því að þetta væri æskilegt um leið og þetta væri ekki mögulegt," sagði Ingimundur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×