Innlent

Verjandinn of seinn í skýrslutökur yfir Baldri

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Mynd/GVA
Vitnaleiðslur yfir Baldri Guðlaugssyni frestuðust um örstutta stund vegna þess að Andri Árnason, verjandi Geirs, var of seinn inn í réttarsalinn nú á ellefta tímanum.

Eftir að vitnaleiðslum yfir Ingimundi Friðrikssyni lauk gerði Markús Sigurbjörnsson, forseti Landsdóms, tíu mínútna hlé á vitnaleiðslum. Dómarar mættu tímanlega í salinn í Þjóðmenningarhúsinu eftir hléið og hugðust hefja réttarhöldin að nýju.

Þegar ljóst var að Andri var ekki mættur spurði Markús ákærða, Geir Haarde, að því hvort hann samþykkti að saksóknari myndi byrja að spyrja Baldur Guðlaugsson þótt verjandinn væri ekki mættur í salinn. Geir spurði þá að móti hvort Markús samþykkti að bíða örstutta stund á meðan leitað yrði að Andra. Markús samþykkti það í örstutta stund.

Þegar ekkert bólaði á Andra hugðist Markús hefja réttarhaldið án hans, en í þann mund sem það var að hefjast gekk Andri inn í salinn. Það kom því ekki til þess að réttarhaldið hæfist í fjarveru hans.

Það skal tekið fram að það voru aðeins örfáar mínútur sem liðu frá því að dómarar gengu í salinn og þangað til Andri gekk inn.

Baldur Guðlaugsson var ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu þegar bankahrunið varð og í aðdraganda þess. Sem slíkur sat hann í samráðshópi um fjármálastöðugleika. Hann var nýlega dæmdur í tveggja ára fangelsi í Hæstarétti fyrir að hafa hagnýtt í eigin þágu upplýsingar sem hann fékk í því starfi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×