Enski boltinn

Villas Boas húmorískur: Ég hef gert þrettán mistök

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andre Villas Boas og Didier Drogba.
Andre Villas Boas og Didier Drogba. Mynd/Nordic Photos/Getty
Andre Villas Boas, stjóri Chelsea, svaraði spurningum blaðamanna í dag en hann var þá mættur á hefðbundinn blaðamannafund fyrir leik Chelsea á móti Bolton Wanderers í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Það er orðið mjög heitt undir Villas Boas eftir dapurt gengi Cheslea-liðsins að undanförnu og ekki lagaðist mikið staða hans við 1-3 tap á móti Napoli í fyrri leik liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar í vikunni.

Roman Abramovich, eigandi Chelsea, var allt annað en ánægður með úrslitin í Napoli og það fór illa í fleiri en hann að margir reynsluboltar liðsins byrjuðu á bekknum í þessum mikilvæga leik.

„Ég hef talað við fólk í kringum hann. Hann er auðvitað vonsvikinn með úrslitin og vildi frá svör um hvernig við settum leikinn upp. Ég útskýrði það fyrir honum. Það eru samt ennþá 90 mínútur eftir og við höfum fulla trú á því að við getum snúið þessu við," sagði Andre Villas Boas, stjóri Chelsea.

„Nú er takmarkið að lágmarka tjónið og ná fjórða sætinu og kannski jafnvel því þriðja. Ef Arsenal vinnur Tottenham og við vinnum okkar leik þá erum við bara sjö stig á eftir þeim. Við eigum síðan eftir að mæta Tottenham," sagði Villas Boas.

„Ég hef gert fullt af mistökum á tímabilinu. Eins og er held ég að ég sé búinn að gera þrettán mistök - sjö jafntefli og sex töp," sagði Andre Villas Boas húmorískur en Chelsea hefur unnið 12 af 25 leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×