Fótbolti

Van Bommel vill fá Robin van Persie til AC Milan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mark van Bommel og félagar fagna fyrir framan Robin van Persie.
Mark van Bommel og félagar fagna fyrir framan Robin van Persie. Mynd/AFP
Mark van Bommel vill fá landa sinn Robin van Persie til AC Milan en hann talaði um það í viðtali við ítalska blaðið Il Giorno. AC Milan setti á svið góða sýningu fyrir Van Persie á dögunum þegar liðið vann 4-0 stórsigur á Arsenal í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

„Það væru frábær kaup fyrir AC Milan að fá Robin van Persie," sagði Mark van Bommel en það vakti athygli að Adriano Galliani, varforseti AC Milan, hrósaði

Van Persie mikið eftir tapleikinn á San Siro. Einhverjir myndu segja að hann hafi þarna verið að daðra við Hollendinginn. Van Bommel talar líka vel um landa sinn.

„Van Persie er frábær leikmaður. Hann hefur mikla hæfileika og það væri frábært að fá hann til AC Milan," sagði Van Bommel.

Samningur Robin van Persie við Arsenal rennur út sumarið 2013 en hann er búinn að skora 50 mörk og gefa 15 stoðsendingar í 67 leikjum í öllum keppnum með Arsenal undanfarin tvö tímabil.

Van Persie kom til Arsenal frá Feyenoord árið 2004 þegar hann var aðeins 21 árs gamall. Þeir Van Bommel hafa síðan verið samherjar í landsliðinu undanfarin sex ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×