Sport

30 sekúndna auglýsing í hálfleik á Super Bowl kostar 440 milljónir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Það er mikil spenna í Bandaríkjunum fyrir úrslitaleikinn í ameríska fótboltanum sem fram fer á sunnudaginn. 111 milljónir horfðu á úrslitaleikinn í fyrra og það er búist við því að leikur New York Giants og New England Patriots í ár, slái það áhorfendamet.

Super Bowl leikurinn hefur verið vinsælasta sjónvarpsefnið í Bandaríkjunum undanfarin 50 ár enda eru Super Bowl leikir í 16 af 20 efstu sætunum þegar kemur að mesta áhorfi á sjónvarpsefni undanfarna hálfa öld. Leikurinn fer fram á sunnudagskvöldið og verður í beinni útsendingu á ESPN America stöðinni á Fjölvarpinu.

Hálfleikurinn í Super Bowl er líka sér kapítuli út af fyrir sig því það er ekki til dýrara auglýsingapláss í bandarísku sjónvarpi. 30 sekúndna auglýsing í hálfleik á Super Bowl í ár kostar 440 milljónir íslenskra króna og hefur NBC-sjónvarpsstöðin hækkað verðið um 17 prósent frá því í fyrra.

Sænska fatafyrirtækið H & M mun auglýsa í hálfleik í ár og birtist David Beckham þá í nærbuxnaauglýsingu á vegum fyrirtækisins. Í aðalhlutverki verða þó sem fyrr bjór-, bíla- og gosdrykkja-auglýsingar auk svipmynda úr nýjustu stórmyndunum úr Hollywood.

Það er Madonna sem mun skemmta í hálfleik í ár en undanfarin ár hafa það verið Bruce Springsteen og Rolling Stones sem trylltu lýðinn og fólk heima í stofu með sínu þekktustu lögum.

Það eykur enn á spennuna að New York Giants og New England Patriots mættust einnig í þessum leik fyrir fjórum árum síðan og þá vann New York Giants dramatískan sigur í æsispennandi leik. Það er því líka von á góðri skemmtun í leiknum sjálfum.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×