Innlent

Össur segir fráleitt að Geirsmálið sprengi stjórnarsamstarfið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir fráleitt að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar í gær á Alþingi muni hafa áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið. Atkvæðin féllu, eins og greint hefur verið frá, þannig að Alþingi ákvað að efnisleg umræða skyldi fara fram um tillögu Bjarna Benediktssonar um að draga málshöfðun gegn Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, til baka.

„Vitaskuld er titringur hér og hvar í stjórnarliðinu og menn eru misjafnlega ánægðir með útkomuna. Ég tel hins vegar alveg fráleitt að þetta leiði til þess að stjórnin falli eins og ég sé vangaveltur um í fjölmiðlum. Það er ekkert í þessu máli sem á að geta leitt til þess nema að menn sé farið að bresta úthaldið. Ég held sannarlega ekki að þetta mál hafi einhverjar afdrifaríkar afleiðingar um framtíð ríkisstjórnarinnar," segir Össur. Össur bendir á að það sé farið að ganga vel hjá ríkisstjórninni. „Það eru allar efnahagsvísbendingar mjög jákvæðar og við erum sigld út úr storminum. Það væri hreinn asnaskapur að ætla að láta gremju yfir úrslitunum breyta einhverju um það," segir Össur.

Aðspurður um það hvort Össur ætli að greiða tillögu Bjarna atkvæði sitt þegar hún verður tekin til atkvæðagreiðslu segist Össur vera samkvæmur sjálfum mér. „Ég var frá upphafi andvígur því að þessu máli væri vísað til landsdóms og ég hef ekki breytt um skoðun á því. Það er ekki frétt þó ráðherra í ríkisstjórn sé samkvæmur sjálfum sér," segir Össur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×