Innlent

Konur með PIP-brjóst verða skoðaðar hjá Krabbameinsfélagi Íslands

Bréf verða send á morgun til þeirra kvenna sem eru með PIP brjóstaígræðslu.
Bréf verða send á morgun til þeirra kvenna sem eru með PIP brjóstaígræðslu.

Velferðarráðuneytið og Krabbameinsfélag Íslands (KÍ) hafa undirritað samning um að Leitarstöð KÍ annist ómskoðanir kvenna sem fengið hafa ígrædda PIP brjóstapúða á árunum 2000-2010 samkvæmt tilkynningu sem finna má á vef velferðaráðuneytisins.



Bréf velferðarráðuneytisins með boði til kvennanna um ómskoðun verða send út á morgun, 24. janúar.



Í tilkynningunni segir svo orðrétt:



„Auk þess að annast ómskoðanirnar mun Leitarstöð KÍ veita konunum upplýsingar og leiðsögn um næstu skref í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnvalda vegna PIP brjóstapúða sem kynnt var 10. janúar. Ómskoðunin er að kostnaðarlausu þeim konum sem eru sjúkratryggðar hér á landi.



Byrjað verður að taka við tímapöntunum hjá Leitarstöð KÍ næstkomandi fimmtudag, 26. janúar.



Í bréfi velferðarráðuneytisins til þeirra kvenna sem um ræðir koma fram nánari upplýsingar varðandi tímapantanir og fyrirkomulag.



Konur sem búsettar eru á landsbyggðinni geta átt þess kost að fá ómskoðun á Sjúkrahúsinu á Akureyri henti þeim það betur. Þrátt fyrir það eiga allar konur að panta tíma hjá Leitarstöð KÍ í samræmi við leiðbeiningar sem fram koma í bréfi til þeirra."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×