Innlent

Alþingi með skýra heimild til að afturkalla málshöfðun í landsdómsmáli

Alþingi hefur skýra lagaheimild til að afturkalla málshöfðun á hendur fyrrverandi forsætisráðherra og ekkert í stjórnarskránni takmarkar þetta vald Alþingis. Þetta segir Róbert Spanó, prófessor og forseti lagadeildar Háskóla Íslands.

Róbert skrifar reglulega greinar um lögfræðilega álitaefni í Fréttablaðið en í nýjastu grein sinni sem birtist í dag fjallar hann um þingsályktunartillögu um afturköllun málshöfðunar á hendur fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, fyrir landsdómi.

Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram tillögu á Alþingi þar sem lagt er til að þingi álykti að fella úr gildi fyrri ályktun þess um málshöfðun gegn fyrrverandi forsætisráðherra frá 28. september 2010. Þá feli Alþingi saksóknara þingsins að afturkalla í heild ákæru sem þingfest var fyrir Landsdómi 7. júní 2011.

Róbert, sem er prófessor og deildarforseti lagadeildar HÍ, reifar skrif fræðimanna um álitaefnið en í niðurlagi greinar sinnar vitnar hann í úrskurð landsdóms frá 3. október sl. þar sem skýrt sé tekið fram að það sé á valdi Alþingis að takmarka eða auka við ákæruatriði fyrir landsdómi. Á því hafi saksóknari Alþingis ekkert forræði og verði hann því að beina því til Alþingis að samþykkja nýja þingsályktun um þær breytingar sem hann telur rétt að gera.

Róbert segir að þótt þarna sé vísað til frumkvæðis saksóknara standi ekki rök til þess að Alþingi geti ekki sjálft ákveðið að eigin frumkvæði að gera breytingar á ákæru eða jafnvel að afturkalla hana. Alþingi hafi samkvæmt stjórnarskránni eitt forræði á því hvort mál sé höfðað og þar með einnig forræði á því hvort málshöfðun verði takmörkuð eða frá henni horfið að öllu leyti.

Þá vitnar Róbert til þess að samkvæmt Landsdómslögum gildi tiltekin ákvæði sakamálalaga um meðferð mála fyrir Landsdómi þar sem ákæranda sé veitt heimild til að afturkalla ákæru allt þar til dómur er uppkveðinn.

Ákærandinn í máli fyrrverandi forsætisráðherra er Alþingi samkvæmt 14. gr. stjórnarskrárinnar. Róbert segir að Alþingi hafi því skýra lagaheimild til að afturkalla málshöfðun á hendur fyrrverandi forsætisráðherra. Ekkert í stjórnarskránni takmarki þetta vald þingsins.

Grein Róberts má lesa í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×