Lífið

Fyrsta platan í fimmtán ár

Grunge-rokkararnir í Soundgarden eru að hefja upptökur á sinni fyrstu plötu í fimmtán ár. Í tilkynningu á heimasíðu sveitarinnar kemur fram að þeir félagar hafi samið flott lög fyrir plötuna, sem fylgir í kjölfar Down on the Upside sem kom út 1996.

„Á undanförnum mánuðum höfum við verið uppteknir við að djamma, semja og eyða tíma saman. Við höfum verið að rannsaka sköpunargáfuna í kringum Soundgarden," segir í tilkynningunni. „Tilfinningin er frábær. Við höfum samið flott lög sem við ætlum að taka bráðum upp. Takk fyrir allan stuðninginn." Platan, sem hefur ekki fengið nafn, kemur út í september.

Soundgarden sló í gegn þegar grunge-æðið reið yfir heimsbyggðina í byrjun tíunda áratugarins og átti lög á borð við Black Hole Sun og Spoonman. Hljómsveitin hætti störfum 1997 og eftir það gaf söngvarinn Chris Cornell út sína fyrstu sólóplötu, Euphoria Morning. Í framhaldinu gekk hann til liðs við Audioslave en hóf síðar sólóferil á nýjan leik. Núna hefur Soundgarden loksins snúið aftur og bíða margir rokkunnendur spenntir eftir nýju plötunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×