Erlent

Írönsk stjórnvöld harma atvikið

Barist Óeirðalögregla reyndi að koma í veg fyrir að mótmælendur kæmust inn í sendiráð Bretlands, en að lokum þurfti að ryðja bygginguna.Nordicphotos/AFP
Barist Óeirðalögregla reyndi að koma í veg fyrir að mótmælendur kæmust inn í sendiráð Bretlands, en að lokum þurfti að ryðja bygginguna.Nordicphotos/AFP
Mótmælendur ruddu sér í gær leið inn í sendiráð Bretlands í Teheran, höfuðborg Írans. Þar brenndu þeir breska fánann, brutu rúður og húsgögn og létu greipar sópa um innanstokksmuni. Ekki er vitað til þess fólk hafi slasast þó að bensínsprengjum og grjóti hafi verið kastað á sendiráðið.

Kveikjan að mótmælunum er sögð hafa verið sú ákvörðun breskra stjórnvalda að herða á efnahagslegum refsiaðgerðum gegn Íran vegna kjarnorkuáætlunar landsins.

Írönsk stjórnvöld sögðust í yfirlýsingu harma atvikið, þar sem lítill hópur mótmælenda hafi sýnt óviðunandi hegðun.

Óeirðalögregla tókst á við mótmælendurna, en um tvær klukkustundir tók að rýma sendiráðið.

Í yfirlýsingu frá breska utanríkisráðuneytinu segir að bresk stjórnvöld telji atvikið svívirðilegt. Þar eru írönsk stjórnvöld átalin fyrir að verja ekki starfsfólk sendiráðsins og sendiráð erlends ríkis í landinu.

Bresk stjórnvöld vöruðu Breta í Íran við því að láta mikið á sér bera í kjölfar mótmælanna. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×