Viðskipti innlent

Jóhanna svarar ekki kalli LÍÚ

Adolf Guðmundsson
Adolf Guðmundsson
Adolf Guðmundsson, formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna,sagði á aðalfundi sambandsins í gær að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefði ekki orðið við ósk sambandsins um að rökstyðja ummæli sín um að upp undir helmingur veðsetningar vegna sjávarútvegsfyrirtækja í bönkunum væri til kominn vegna óskyldrar starfsemi.

Tvívegis hefur LÍÚ kallað eftir svörum frá ráðherra og beðið um gögn sem liggja að baki orðum hennar sem féllu í Kastljósviðtali fyrir um mánuði.

„Ef við gefum okkur þær forsendur að undir „óskylda starfsemi“ falli allar fjárfestingar aðrar en þær sem ætlaðar til reglulegrar starfsemi og í aflaheimildum má með einbeittum vilja toga þetta hlutfall upp í um ellefu prósent þegar það reis hæst árið 2007,“ sagði Adolf, sem gagnrýndi stjórnvöld hart.

Adolf vék einnig að nýrri úttekt Deloitte, sem gerð var að ósk samtakanna um áhrif boðaðra breytinga á stjórn fiskveiða. Taldi hann einsýnt að Deloitte hefði sýnt fram á alvarlega meinbugi á fyrirhuguðum breytingum.

Það vakti athygli á fundinum að Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra þekktist ekki fundarboð útvegsmanna. Þetta mun vera í fyrsta skipti í áratugi sem fagráðherra sjávarútvegsmála ávarpar ekki útvegsmenn við upphaf aðalfundar.- shá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×