Viðskipti innlent

IE krefst lögbanns á umsvif forstjórans sem var rekinn

Matthías Imsland þegar hann var enn forstjóri Iceland Express.
Matthías Imsland þegar hann var enn forstjóri Iceland Express.
Krafist er lögbanns á að Matthías Imsland, fyrrverandi forstjóri Iceland Express, notfæri sér trúnaðarupplýsingar frá félaginu til að vinna að stofnun annars fyrirtækis í flugrekstri.

Matthías var ráðinn forstjóri Iceland Express 1. janúar 2007. Að því er lögmaður félagsins segir í lögbannskröfu var Matthíasi sagt upp 19. september síðastliðinn fyrir að hafa „fegrað" bókhald félagsins.

„Var hér um svo grófa rangfærslu bókhalds að ræða að stjórnin átti þann kost einan að leysa gerðarþola [Matthías] undan daglegri vinnuskyldu þegar í stað," segir í lögbannskröfunni. Þar kemur enn fremur fram að Matthías hafi haldið tölvum og símum sem félagið ætlaði að greiða fyrir þar til uppsagnarfresti lyki 1. apríl á næsta ári. Í tvö ár þar á eftir megi hann ekki fara í samkeppni við IE og í þrjú ár megi hann ekki hagnýta sér trúnaðarupplýsingar sem hann hafði aðgang að sem forstjóri.

„Í ljós er komið að gerðarþoli [Matthías] hefur í það minnsta frá því hann var leystur undan starfsskyldum hjá gerðarbeiðanda [IE], unnið að stofnun sams konar félags og gerðarbeiðandi er, sem meðal annars á að standa að áætlunarflugi til og frá Íslandi," segir í lögbannskröfunni sem lögð var fram hjá sýslumanninum í Reykjavík í gær. Auk lögbanns á að Matthías noti sér upplýsingar frá IE til hagsbóta fyrir annað félag er þess krafist að sýslumaður taki úr vörslu hans síma og tölvur í eigu IE.

Látið er að því liggja í lögbannskröfunni að Matthías starfi fyrir nýtt félag í eigu Skúla Mogensen, Iceland Jet ehf. Ekki náðist í Matthías í gærkvöld og Skúli vildi ekki tjá sig um málið. - gar /






Fleiri fréttir

Sjá meira


×