Íslenski boltinn

Lagerbäck er með hærri laun en formaðurinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Mikil umræða hefur átt sér stað um laun landsliðsþjálfara Íslands. Eftir að umræðan um erlendan þjálfara fór í gang hefur heyrst að það kosti 60-70 milljónir króna á ári að vera með erlendan þjálfara. Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, segir að sú umræða eigi sér enga stoð í raunveruleikanum.

„Stjórn KSÍ setti okkur ákveðinn fjárhagslegan ramma fyrir þessa ráðningu. Við erum innan þess ramma. Ég vil ekki segja hvað Lars er nákvæmlega með í laun en það er talsvert minna en þessar 65 milljónir sem talað var um í sænskum fjölmiðlum,“ sagði Geir ákveðinn og bætti við að þó svo að Lagerbäck væri með hærri laun en fyrirrennarar hans væru launin ekki það há að þau trufluðu starfsemi KSÍ á nokkurn hátt.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem KSÍ neitar að gefa upp laun en launaleynd hefur fylgt sambandinu lengi. Af hverju er það?

„Við höfum ekki viljað gera það áður og það hefur einfaldlega ekki breyst. Lars er samt klárlega með hærri laun en þjálfararnir á undan honum,“ sagði Geir en er Lagerbäck með hærri laun en hann? „Já, Lars er með hærri laun en formaðurinn.“

Svíinn segist vera sáttur við sinn samning og tekur fram að hann sé ekki að koma til Íslands peninganna vegna.

„Ef ég hefði ekki verið sáttur við samninginn þá hefði ég aldrei skrifað undir hann. Ef ég væri á höttunum eftir peningum hefði ég farið eitthvert annað en til Íslands. Ég er að koma hingað á fótboltalegum forsendum því hér er spennandi tækifæri fyrir mig,“ sagði Lagerbäck og glotti við tönn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×