Viðskipti innlent

Segja afkomu batna jafnt og þétt

Batnandi afkoma Sigurður Atli Jónsson, bankastjóri MP banka, segir útlitið gott þrátt fyrir að aðstæður séu ekki eins og best verður á kosið.
Batnandi afkoma Sigurður Atli Jónsson, bankastjóri MP banka, segir útlitið gott þrátt fyrir að aðstæður séu ekki eins og best verður á kosið.
Afkoma MP banka hefur batnað stórum frá því að nýir eigendur tóku við í aprílmánuði síðastliðnum og er stefnt að því að afkoman muni enn batna jafnt og þétt og verði jákvæð á síðasta ársfjórðungi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum í tilefni af birtingu árshlutauppgjörs fyrir fyrri helming ársins, en þar segir jafnframt að nú þegar á þriðja fjórðungi hafi afkoma verið umfram áætlanir og jákvæð í septembermánuði.

Í uppgjörinu kemur fram að bankinn tapaði 560 milljónum króna, sem skýrist helst af því að hefðbundin starfsemi bankans, til að mynda lánastarfsemi, lá niðri að mestu á meðan undirbúningur að hlutafjáraukningu stóð yfir.

Sigurður Atli Jónsson, forstjóri bankans, segir í tilkynningunni að bæði innri og ytri aðstæður séu vissulega krefjandi.

„Hins vegar er ánægjulegt að sjá að við erum að koma MP banka hratt út úr byrjunarstöðunni. Við erum að stofna til fjölda nýrra viðskiptasambanda við fyrirtæki og einstaklinga, útlánasafn okkar er að stækka samkvæmt áætlunum og við erum í leiðandi stöðu á verðbréfamarkaði,“ segir Sigurður Atli. - þj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×