Viðskipti innlent

Umhverfissóðar vilja Icelandic

Sjávarþorp í Alaska Mengun frá fiskvinnslustöðvum Trident í Alaska hefur lengi verið vandamál sem nú á að taka á, segir talsmaður bandarísku umhverfisverndarstofnunarinnar (EPA). 
Nordicphotos/AFP
Sjávarþorp í Alaska Mengun frá fiskvinnslustöðvum Trident í Alaska hefur lengi verið vandamál sem nú á að taka á, segir talsmaður bandarísku umhverfisverndarstofnunarinnar (EPA). Nordicphotos/AFP
Bandaríska fiskvinnslufyrirtækið Trident Seafoods hefur samþykkt upphæð sem jafngildir um 300 milljónum íslenskra króna í sekt vegna umhverfisspjalla við fjórtán fiskvinnslustöðvar fyrirtækisins í Alaska.

Trident er eitt nokkurra fyrirtækja sem boðið hafa í Icelandic Group, sem er í söluferli hjá Framtakssjóði Íslands, eiganda fyrirtækisins.

Auk þess að greiða sekt í ríkissjóð hefur Trident lofað að eyða sem jafngildir um 3,6 milljörðum í að hreinsa upp mengun frá fiskvinnslustöðvunum, að því er fram kemur í bandaríska dagblaðinu Seattle Times í gær.

Fyrirtækið varð uppvíst að því að sturta tugum milljóna kílóa af fiskúrgangi í sjóinn við vinnslustöðvar sínar.

Mengunin eyddi lífríki á stórum hafsvæðum. Á köflum er úrgangurinn eins og „þykkt slímugt teppi af slori sem kæfir lífríkið í sjónum og truflar alla fæðukeðjuna í sjónum“, sagði Tara Martich hjá bandarísku umhverfisverndarstofnuninni (EPA).

Trident er eitt af stærstu fiskvinnslufyrirtækjum heims. Það gerir út fjölda skipa, rekur sautján verksmiðjur í Bandaríkjunum og hefur um 8.000 starfsmenn í vinnu samkvæmt upplýsingum á vefsíðu fyrirtækisins.- bj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×