Íslenski boltinn

Veigar Páll: Fátt skemmtilegra en að spila gegn Noregi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Veigar Páll Gunnarsson er kominn aftur í íslenska landsliðið.
Veigar Páll Gunnarsson er kominn aftur í íslenska landsliðið. Mynd/Anton
Veigar Páll Gunnarsson var valinn í íslenska landsliðið á nýjan leik fyrir leikina gegn Noregi og Kýpur í undankeppni EM 2012 byrjun september. Veigar Páll þekkir mjög vel til í Noregi, þar sem hann hefur spilað í átta ár, og hlakkar hann vitanlega mjög til að fá að mæta Norðmönnum á nýjan leik.

„Það er mjög ánægjulegt að vera valinn aftur í landsliðið enda mikill heiður að fá að spila fyrir hönd þjóðarinnar," sagði hann í samtali við Fréttablaðið. „Það er heldur alls ekkert leyndarmál að mér finnst skemmtilegt að spila gegn Noregi. Það er nánast þannig að maður þekkir marga í norska lanndsliðinu jafnvel og þá í því íslenska. Þetta er því bara eins og að spila gegn félögunum."

Noregur er í 12. sæti á styrkleikalista FIFA en Ísland í 124. sæti. Veigar Páll segir muninn á landsliðunum þó ekki vera mikinn þó svo að Norðmenn séu vissulega með sterkara lið. „Munurinn er ekki svo mikill – það er alveg ljóst. Norska landsliðið er með aðeins meiri breidd í sínu liði en ef við hittum á góðan dag getum við vel tekið þrjú stig. Ef okkur tekst að vinna saman sem liðsheild getum við vel tekið þrjú stig í Ósló."

Hann segir muninn liggja einnig að miklu leyti í sjálfstrausti og trú á eigin getu. „Sjálfstraust og leikgleði er í hámarki í norska landsliðinu. Þegar leikmenn ganga inn á völlinn ætla þeir sér sigur – sama hver andstæðingurinn er. Skiptir engu hvort það er Þýskaland eða Færeyjar. Þeim hefur gengið vel í langan tíma og er þetta bein afleiðing af því."

Ólafur Jóhannesson mun ekki halda áfram sem landsliðsþjálfari þegar undankeppninni lýkur í haust. „Ég hef svo sem ekki sterkar skoðanir á því," segir Veigar Páll um það. „En miðað við árangur er ágætt að prófa eitthvað nýtt. En Óli er mjög fínn þjálfari og ég hef verið mikið í hópi hjá honum. Ég hef því ekkert slæmt um hann að segja – alls ekki."

Veigar Páll hefur átt velgengni að fagna á sínum ferli en aldrei fengið að njóta sín til fulls með landsliðinu. Hann hefur fengið að líða fyrir það að spila sömu stöðu og Eiður Smári Guðjohnsen, sem hefur gengið fyrir í landsliðinu.

„Ég held að það hafi haft sitt að segja og hef ég fullkominn skilning á því. En svo þegar Eiður gekk í gegnum smá lægð á sínum ferli kom Gylfi (Þór Sigurðsson) til sögunnar og gekk í sama hlutverk. Ég skil það líka mjög vel," segir hann og bætir við: „Ég verð því að líta svo á að ég sé bara fórnarlamb aðstæðna og það er lítið sem ég gert í því," sagði hann í léttum dúr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×