Viðskipti innlent

Forstjóri N1 vill 400 milljónir

Hermann Guðmundsson
Hermann Guðmundsson
Steinunn Guðbjartsdóttir
„Málin fara ekki öll fyrir dómstóla. Í einhverjum tilvikum fáum við fordæmi frá öðrum málum sem gilda á línuna,“ segir Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis.

Fyrirtaka er á næstum dögum í fjölda ágreiningmála um kröfur bæði einstaklinga og fyrirtækja við slitameðferð Glitnis sem send voru dómstólum fyrir réttarhlé í júlí. Rúmlega átta þúsund kröfum var lýst í þrotabú Glitnis á sínum tíma. Steinunn segir ágreining um helming þeirra.

Hún bætir við að með dómstólaleiðinni sé fólk að láta reyna á rétt sinn. Forgangskröfur greiðist að fullu en almennar kröfur að hluta við slitameðferð.

Hermann Guðmundsson, forstjóri olíuverslunarinnar N1, er einn þeirra sem lýsti kröfu í bú Glitnis og bíður þess nú að ágreiningsmál hans verði tekið fyrir hjá Héraðsdómi Reykjavíkur í næstu viku. Hann átti innstæðu upp á rúmar 388 milljónir króna í Glitni þegar bankinn fór á hliðina.

Hermann vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað í gær. Steinunn sagðist ekki geta tjáð sig um einstök mál.

Meðaltími einstaks máls hjá héraðsdómi er sex til átta mánuðir og gæti því niðurstaða í máli sem tekið er fyrir um næstu mánaðamót legið fyrir í febrúar eða mars á næsta ári. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×