Viðskipti innlent

Hugsanavilla Hagsmunasamtakanna

Þórólfur Matthíasson
Þórólfur Matthíasson
Þórólfur Matthíasson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, vísar athugasemdum Andreu Ólafsdóttur, formanns Hagsmunasamtaka heimilanna, á bug. Andrea gerði um helgina athugasemdir við gagnrýni Þórólfs á útreikninga samtakanna.

„Mér fannst undarlegt að sjá vitnað til tveggja manna tals okkar á opinberum vettvangi,“ segir Þórólfur og bætir við: „Samtal mitt við Andreu staðfesti reyndar vissu mína um í hverju er fólgin sú hugsanavilla sem liggur að baki nýjustu herferð Hagsmunasamtaka heimilanna. Villan felst í því að beitt er samlagningu þar sem margföldun á við.“

Þórólfur segist ekki munu fela Andreu Ólafsdóttir að vera blaðafulltrúi sinn og segir Andreu draga rangar ályktanir af spjalli þeirra. „Vera má að Andrea Ólafsdóttir telji að rangt sé rétt og rétt rangt. Aðrir verða að fá að vera frjálsir að því að telja rétt rétt og rangt rangt,“ segir Þórólfur.

Hagsmunasamtök heimilanna sendu nýverið kvörtun til umboðsmanns Alþingis varðandi reikninga fjármálastofnana á verðtryggingu lána. Samtökin telja vafa leika á því hvort lagastoð sé fyrir viðtekinni reikningsaðferð.

Lögfræðilegri greinargerð frá samtökunum fylgir dæmi þar sem borin eru saman tvö lán, annað með verðtryggðum höfuðstól og hitt með verðtryggðum greiðslum. Er komist að þeirri niðurstöðu að hagstæðara sé fyrir lántakendur að greiðslur séu verðtryggðar í stað höfuðstóls. Þórólfur segir það hins vegar ekki vera rétt, lánaform eigi ekki að hafa áhrif á heildarverðmæti lánaafborgana.

- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×