Viðskipti innlent

HS Orka semur við Stolt Sea Farm

Reykjanesvirkjun Stjórnarformaður HS Orku segir að með samningum sé búið að bæta við þá flóru sem vaxi í jarðvarmanum.fréttablaðið/valli
Reykjanesvirkjun Stjórnarformaður HS Orku segir að með samningum sé búið að bæta við þá flóru sem vaxi í jarðvarmanum.fréttablaðið/valli
Forsvarsmenn HS Orku og alþjóðlega fiskeldisfyrirtækisins Stolt Sea Farm gengu í gær frá samstarfssamningi. Hann felur í sér að Stolt Sea Farm fái að nýta land og heitt vatn frá HS Orku fyrir eldisstöð á Reykjanesi. Áformin miðast við að framkvæmdir við eldisstöðina hefjist í lok árs.

„Þetta eru mjög fá megavött sem um ræðir, þetta er engin stóriðja í þeim skilningi,“ segir Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður HS Orku. „Þetta er hins vegar mjög góð viðbót og eykur fjölbreytnina við nýtingu jarðhitans. Þetta nýtir til dæmis afgangsorku frá orkuverinu sem annars yrði ekki notuð.“

Þetta verður eldisstöð fyrir senegalflúru en Pablo Garcia, forstjóri Stolt Sea Farm, segir fyrirtækið vera það fremsta í heiminum í slíku eldi. Auk þess að ræða við forsvarsmenn HS Orku, sat hann einnig fund með Árna Sigfússyni, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, í gær.

García hefur sagt við Fréttablaðið að eldisstöðin, sem byggð verður á um sjö hektara svæði, muni skapa atvinnu fyrir um fimmtíu manns og búast megi við að um sjötíu og fimm önnur störf skapist samhliða þeim. Áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar verður ekki minni en 2,5 milljarðar. Enn er þó ekki kálið sopið því Umhverfisstofnun hefur enn ekki veitt fyrirtækinu starfsleyfi.

- jse






Fleiri fréttir

Sjá meira


×