Íslenski boltinn

Erum töluvert stærri og þyngri en þær

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðmunda Brynja Óladóttir hefur skorað 13 mörk í 17 leikjum með 17 ára landsliðinu.
Guðmunda Brynja Óladóttir hefur skorað 13 mörk í 17 leikjum með 17 ára landsliðinu.
Íslenska stúlknalandsliðið í knattspyrnu skipað leikmönnum 17 ára og yngri hélt í gærkvöldi til Sviss. Fram undan er undanúrslitaleikur við Spán á fimmtudag en Spánverjar eru ríkjandi Evrópumeistarar í þessum aldursflokki.

„Þetta verður mjög erfitt en við ætlum að gefa allt í þetta og taka þennan leik,“ segir Lára Kristín Pedersen, miðjumaður íslenska liðsins. Lára Kristín, sem leikur með Aftureldingu, er kokhraust og segir íslenska liðið eiga von.

„Að sjálfsögðu eigum við möguleika. Við erum búnar að standa okkur alveg jafnvel og þær, jafnvel betur. Við ætlum að sýna hvað við getum,“ segir Lára Kristín sem segir samheldnina, hjartað og föðurlandsástina vera styrk íslenska liðsins.

Leið íslenska liðsins í undanúrslit hefur verið löng og ströng en íslenska liðið hefur farið á kostum. Liðið lagði Litháen, Búlgaríu og Ítalíu með yfirburðum í undankeppninni síðastliðið haust. Í vor urðu Englendingar, Pólverjar og Svíar á vegi íslensku stúlknanna. Sex sigrar og markatalan 37-2 gefur tilefni til þess að ætla að íslenska liðið sé sterkt.

„Styrkur okkar er hve vel við þekkjumst. Það er mikil samheldni í hópnum og engin skilin út undan,“ segir Selfyssingurinn Guðmunda Brynja Óladóttir, framherji íslenska liðsins. „Við erum töluvert stærri og þyngri en þær. Við eigum að vera sterkari í föstum leikatriðum og eigum að vinna þær þar. Við ætlum að láta finna fyrir okkur,“ segir Guðmunda sem er leikjahæst í íslenska liðinu.

Íslenska landsliðið lenti í 5. sæti á Norðurlandamótinu í sumar en þá voru stúlkurnar fæddar árið 1994 ekki gjaldgengar. Liðið vann Svía, gerði jafntefli við Þjóðverja og Norðmenn en tapaði gegn Frökkum.

Ísland mætir Spáni á fimmtudaginn klukkan 12 á hádegi. Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast Þýskaland og Frakkland. Leikið verður um sæti um næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×