Erlent

Vilja sakhæfisaldur í 15 ár á ný

14 ára dæmdir Danska stjórnarandstaðan vill að sakhæfisaldur verði hækkaður upp í 15 ár, en hann var hækkkaður úr 14 árum í fyrra. Nordicphotos/AFP
14 ára dæmdir Danska stjórnarandstaðan vill að sakhæfisaldur verði hækkaður upp í 15 ár, en hann var hækkkaður úr 14 árum í fyrra. Nordicphotos/AFP
Stjórnarandstaðan í Danmörku krefst þess að sakhæfisaldur verði aftur hækkaður upp í 15 ár, en frá júlímánuði í fyrra hefur hann miðast við 14 ár. Samkvæmt úttekt dönsku tölfræðistofnunarinnar komu upp 200 mál frá júlí að áramótum þar sem 14 ára unglingar voru kallaðir fyrir dóm.

Um helmingur málanna lýtur að búðarþjófnaði, en 28 voru vegna árása þar af tvær vegna grófs ofbeldis, fimm voru vegna rána og eitt vegna nauðgunar. Af 200 málum lauk 170 með sektardómi.

Talsmaður Sósíalíska þjóðarflokksins sagði í viðtali við danska ríkisútvarpið að þessar tölur sýndu allt annan veruleika en þann sem stjórnarflokkarnir hefðu nýtt sér til að rökstyðja niðurfærslu sakhæfisaldurs í fyrra. Vissulega þurfi unglingar sem verði uppvísir að lögbrotum að mæta afleiðingum gerða sinna, en þau mál megi afgreiða á annan hátt en sem sakamál.

Talsmaður Íhaldsflokksins, sem er í stjórn með Vinstriflokknum, segir tölurnar sýna færri alvarleg afbrot 14 ára unglinga og því sé ljóst að lögin þjóni sínum tilgangi.

Talsmaður Danska þjóðarflokksins, sem ver ríkisstjórnina falli, er sammála því að tölurnar réttlæti lögin. Þau hafi fælingarmátt og sendi skýr skilaboð til ungra afbrotamanna um að lögbrot verði ekki liðin.- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×