Innlent

Bjarni gagnrýnir landsdómsmeðferð

Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, segir ganga út fyrir allan þjófabálk hvernig farið hafi verið með Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, í málsmeðferð saksóknara Alþingis. Ummælin féllu í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í gær.

„Þá hófst vegferðin á því að ákæra var gefin út án sakamálarannsóknar. Sakborningurinn fékk síðan ekki skipaðan verjanda fyrr en seint og um síðir. Innanríkisráðherra lagði síðan fram frumvarp um breytingar á málsmeðferðarreglum eftir að ákæra hafði verið gefin út. Og nú síðast hefur saksóknari Alþingis ákveðið að opna vefsíðu til þess að halda saman sjónarmiðum sínum og málsskjölum," sagði Bjarni.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði málsmeðferðina hafa tekið allt of langan tíma þótt gera mætti ráð fyrir því að unnið hefði verið í samræmi við lög og reglur. Þá sagðist hún ekki telja það athugunarefni, að óathuguðu máli, að opnuð væri vefsíða um málið. Hins vegar væri sjálfsagt að sjónarmiðum sakbornings væri einnig haldið til haga á síðunni.

Málið gegn Geir Haarde verður þingfest fyrir landsdómi næsta þriðjudag.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×