Viðskipti innlent

Skoða byggingu olíubirgðastöðvar

Frá Reyðarfirði Verkfræðistofan Mannvit vinnur að hugmyndum um olíubirgðastöð við Reyðafjörð. Það er hins vegar enn á frumstigi.
Frá Reyðarfirði Verkfræðistofan Mannvit vinnur að hugmyndum um olíubirgðastöð við Reyðafjörð. Það er hins vegar enn á frumstigi.
Hugmyndir eru uppi um að reisa 450.000 rúmmetra olíubirgðastöð á Eyri við Reyðarfjörð. Verkefnið er að frumkvæði verkfræðistofunnar Mannvits ehf. og hefur verið rætt á fundum nefnda og ráða Fjarðabyggðar undanfarið.

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar, segir í samtali við Fréttablaðið að málið sé enn á frumstigi.

„Mannvit hefur óskað eftir áformayfirlýsingu frá Fjarðabyggð. Við munum nú ræða í bæjarráði hvernig okkar aðkoma að því gæti orðið en ég á von á að það gæti klárast í næstu viku.“

Jón Björn segir að áformayfirlýsing yrði ekki bindandi fyrir sveitarfélagið, en Mannvit muni vinna áfram að verkefninu. Ef það svo reynist vænlegt verði það sett í umhverfismat.

„En núna er þetta komið í umræðuna og bæjarráð mun afla sér frekari upplýsinga. Í framhaldinu munum við taka ákvörðun um yfirlýsinguna og þá hefst annar fasi í ferlinu,“ segir Jón Björn.

Á síðasta fundi bæjarstjórnar lét Fjarðalistinn, sem er í minnihluta, bóka þá skoðun sína að íbúar ættu að fá að kjósa um byggingu olíubirgðastöðvar. Meirihlutinn svaraði því til að slíkt sé fljótfærnislegt, en mikilvægt sé þó að íbúar séu upplýstir um gang mála. - þj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×