„Það kom kauptilboð sem var samþykkt um daginn," segir Björn Guðmundsson, sölustjóri Fasteignasölunnar Byggðar á Akureyri.
Hrafnabjörg við Eyjafjörð, eitt glæsilegasta hús landsins, hefur verið selt. Húsið var áður í eigu Jóhannesar Jónssonar í Bónus, en Mynni ehf., félag í eigu skilanefndar Landsbankans, setti það á sölu í síðustu viku, eins og Fréttablaðið greindi frá.
Fasteignasalan Byggð á Akureyri seldi húsið, en fasteignasölurnar Stakfell, Eignamiðlun og Fasteignamiðstöðin voru einnig með húsið á skrá. Björn Guðmundsson vill hvorki gefa upp hver átti tilboðið í húsið né hversu hátt það var, en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hljóðaði tilboðið upp á tæpar 200 milljónir.
Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi skilanefndar Landsbankans, staðfesti að tilboð í húsið hefði verið samþykkt en gat að öðru leyti ekki tjáð sig um söluna.
Fréttablaðið hafði einnig samband við Jóhannes Jónsson, en hann bjó í húsinu þegar það var í eigu Gaums, eignarhaldsfélags Baugsfeðga. Hann segir að hvorki hann né aðilar honum tengdir hafi fest kaup á húsinu.
Arkitektinn Fanney Hauksdóttir teiknaði húsið. Hún sagði í samtali við Fréttablaðið í síðustu viku húsið vera einstakt að mörgu leyti. „Það var mikið lagt í húsið. Mikill metnaður," sagði hún.
Ekkert var til sparað við byggingu hússins og samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var kostnaðurinn hátt í 400 milljónir. Húsið er á tveimur hæðum og á efri hæðinni mynda stofan, borðstofan og eldhúsið eitt stórt og opið rými.
Gólfsíðir útsýnisgluggar eru í stofunni ásamt arni. Á neðri hæðinni má meðal annars finna tæknirými, líkamsræktaraðstöðu og tvö baðherbergi. Fyrir utan er 40 fermetra sundlaug og stór heitur pottur.
atlifannar@frettabladid.is
