Erlent

Átökin nálgast höfuðborgina

Liðsmenn Gbagbos Götur borgarinnar Abidjan voru að mestu auðar í gær fyrir utan liðsmenn forsetans sem neitar að láta af völdum. nordicphotos/AFP
Liðsmenn Gbagbos Götur borgarinnar Abidjan voru að mestu auðar í gær fyrir utan liðsmenn forsetans sem neitar að láta af völdum. nordicphotos/AFP
Harðir bardagar geisuðu í gær í næsta nágrenni Abidjans, sem er stærsta borg Fílabeinsstrandarinnar og í reynd höfuðborg landsins.

Uppreisnarmenn, sem styðja réttkjörinn forseta landsins til valda, sækja að borginni þar sem Laurent Gbagbo og stjórnarher hans hafa höfuðstöðvar.

Gbagbo tapaði í forsetakosningum í nóvember en hefur neitað að láta af völdum þrátt fyrir þrábeiðni bæði Sameinuðu þjóðanna og Afríkubandalagsins.

Sigurvegari kosninganna, Alassane Ouattara, nýtur liðsinnis uppreisnarmanna sem hafa náð áttatíu prósentum landsins á sitt vald á örfáum dögum.

„Þessu er alveg að ljúka. Það er bara spurning um nokkrar klukkustundir,“ sagði Patrick Achi, talsmaður Ouattaras.

„Ef Gbagbo vill ekki að barist verði í Abidjan, þá á hann að gefast upp. Ef hann gerir það ekki, þá er enginn annar kostur fyrir okkur.“

Ekkert bendir þó til að Gbagbo hafi minnsta hug á að gefa eftir.

Allt að ein milljón manna hefur hrakist á flótta undan átökunum, sem hafa kostað hátt í fimm hundruð manns lífið.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×