Erlent

Sextán danskir Vítisenglar fyrir dómi

Sextán danskir meðlimir í vélhjólaklíkum, eða „rokkarar“ eins og þeir eru kallaðir, voru leiddir fyrir dóm í Glostrup á Sjálandi í gær, ákærðir fyrir sex tilraunir til manndráps, alvarlega líkamsárás með kylfum og fleiri glæpi. Þetta eru viðamestu réttarhöld af sinni tegund sem fram hafa farið í Danmörku.

Hinir ákærðu hafa allir neitað sök en þeir eru meðlimir í Vítisenglum eða stuðningsklíkunni AK81. Brian Sandberg, einn af forvígismönnum Vítisengla í landinu, er þeirra á meðal.

Málareksturinn byggir á vitnisburði ungs manns sem var félagi í AK81. Sá hefur þegar fengið tólf ára fangelsisdóm fyrir aðild sína að einni morðtilrauninni, en snerist gegn samtökunum eftir að hafa lent í ónáð innan þeirra.

Hinir ákærðu voru handteknir í fyrrasumar, en að sögn lögmanns þeirra munu þeir ekki tjá sig um sakargiftirnar fyrr en lykilvitni ákæruvaldsins hefur borið vitni.

Ekki er búist við niðurstöðu í málinu fyrr en í september.

Lögregla var með mikinn viðbúnað fyrir utan dómshúsið, enda voru um 100 mótorhjólamenn fyrir utan til að sýna félögum sínum samstöðu. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×