Erlent

NATO segist aðeins vernda fólk

„Markmið okkar er að vernda og aðstoða almenna borgara og byggðakjarna sem eiga árásir á hættu,“ sagði kanadíski herforinginn Charles Bouchard, sem þessa dagana er að taka við yfirstjórn hernaðaraðgerða NATO í Líbíu af Bandaríkjamönnum.

Hann sagði það alrangt að markmið árásanna væri að aðstoða uppreisnarmenn í baráttu þeirra gegn hermönnum á vegum stjórnar Múammars Gaddafí.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hélt því fram að loftárásir NATO væru ekkert annað en alþjóðleg íhlutun í borgarastríðið í Líbíu. Þessar loftárásir gangi miklu lengra en ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna heimilar.

Eftir að loftárásirnar hófust hafa uppreisnarmenn náð á sitt vald aftur öllum þeim borgum í vesturhluta landsins.

Í gær börðust þeir í næsta nágrenni fæðingarstaðar Gaddafís, sem ýmist er nefnd Sirte eða Surt, og stefna í vesturátt.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×