Erlent

Hörð átök í höfuðborginni

Óstöðvandi Mótmælendur í Líbíu komu saman í Benghazi og fleiri borgum, sem uppreisnarmenn hafa náð á sitt vald.
nordicphotos/AFP
Óstöðvandi Mótmælendur í Líbíu komu saman í Benghazi og fleiri borgum, sem uppreisnarmenn hafa náð á sitt vald. nordicphotos/AFP
Liðsmenn Múammars Gaddafí héldu áfram að skjóta á fólk í höfuðborginni Trípolí í gær. Hörð átök voru bæði í borginni og nágrenni hennar. Talið er að þúsundir hafa látið lífið.

Sjálfur mætti Gaddafí á Græna torgið í Trípolí og bar sig mannalega, hvatti fólk til að ráðast gegn uppreisnarmönnum og stærði sig af því að vera maður fólksins.

Margir helstu ráðherrar og samstarfsmenn Gaddafís hafa sagt af sér og einn þeirra, Abdel Fatah Yunis fyrrverandi innanríkisráðherra, sagði að Gaddafí myndi aldrei gefast upp.

Víða í ríkjum Norður-Afríku og Mið-Austurlanda hefur almenningur komið saman að loknum föstudagsbænum múslíma til að mótmæla stjórnvöldum eða fagna árangri.

Tugir þúsunda héldu út á götur í Jemen í gær til að krefjast afsagnar forsetans. Herinn svaraði með skotárásum á mannfjöldann.

Tugir þúsunda komu einnig saman í Barein til að krefjast umbóta, en í Túnis skýrði stjórnin frá því að kosningar yrðu haldnar um miðjan júlí.

Stolt mátti greina í máli fólks á götum Túnis í gær, sex vikum eftir að Ben Ali forseti var hrakinn úr landi. Byltingin í Túnis hratt af stað þeirri bylgju mótmæla í ríkjum arabaheimsins sem nú er að kaffæra Gaddafí í Líbíu. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×