Viðskipti innlent

Vandséð hvað gera á við peningana

Kauphöllin Spurning er hvort lífeyrissjóðirnir geta fundið fjárfestingum farveg í nýskráningum fyrirtækja í Kauphöllina.Fréttablaðið/GVA
Kauphöllin Spurning er hvort lífeyrissjóðirnir geta fundið fjárfestingum farveg í nýskráningum fyrirtækja í Kauphöllina.Fréttablaðið/GVA
Staða íslenskra lífeyrissjóða er með ágætum, þrátt fyrir bankahrunið, að mati greiningardeildar Arion banka. Staða sjóðanna er sér í lagi sögð góð í samanburði við önnur lönd.

„Þrátt fyrir eignartap í kjölfar bankahrunsins kemur í ljós að lífeyrissparnaður sem hlutfall af landsframleiðslu er hér með því hæsta sem gerist. Hrein eign íslensku lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris nam 1.893 milljörðum króna í lok árs 2010,“ segir í umfjöllun bankans í gær. Hrein eign lífeyrissjóðanna er því sögð nema um 125 prósentum af vergri landsframleiðslu síðasta árs.

Greiningardeild Arion banka metur fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna á þessu ári á um 130 milljarða króna. Iðgjöld, að frádregnum útgreiðslum, séu nærri 40 milljarðar og vaxtatekjur sjóðanna nemi um 90 milljörðum króna.

„Að finna farveg fyrir 130 milljarða króna á einu ári í lokuðu hagkerfi þar sem hlutabréfamarkaðurinn er enn í skötulíki og almenn skuldahjöðnun ríkir getur verið afar erfitt verkefni,“ segir í umfjöllun greiningardeildarinnar.

„Þar að auki eru vextir lágir nú um stundir og því engir augljósir kostir í stöðunni.“ Greining bankans er birt undir fyrirsögninni „lúxusvandi lífeyrissjóðanna“.- óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×