Handbolti

Einar: Aðrir munu stíga upp

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Einar Andri Einarsson, þjálfari FH, líst vel á síðari hluta tímabilsins en FH-ingar gerðu í kvöld jafntefli við sterkt lið Fram, 26-26, á útivelli.

„Við spiluðum vel í kvöld, rétt eins og Framararnir. Þetta var góður leikur miðað við þann fyrsta eftir langt vetrarfrí, sérstaklega þar sem að leikurinn var mikilvægur og spennustigið hátt," sagði Einar.

„Við komum okkur í góð færi í flestum sóknum. Ólafur Guðmundsson og Ásbjörn Friðriksson voru frábærir í kvöld. Vörnin hélt lengst af þó svo að við höfum gefið þeim eitt og eitt mark inn á milli."

Þeir Ólafur og Andrés skoruðu 21 af 26 mörkum FH í leiknum en Einar hefur ekki áhyggjur á því að liðið skorti fjölbreytileika í sóknarleiknum. „Við erum með nýja stráka í liðinu. Hjörtur [Hinriksson] kom inn í liðið rétt fyrir áramót og er að koma sér inn í málin. Halldór [Guðjónsson] á líka helling inni en hann er ungur og efnilegur leikmaður. Þetta var hans fyrsti leikur þar sem hann er í aðalhlutverki í sinni stöðu og því var hann ef til vill svolítið stressaður."

„En það verður að viðurkennast að Óli og Ási drógu vagninn fyrir okkur í kvöld. Ég hef ekki áhyggjur af öðrum. Örn Ingi [Bjarkason] kemur aftur inn í liðið fljótlega og þá kannski verður þetta betra."

FH hikstaði á köflum fyrir áramót en Einar er bjartsýnn á síðari hluta tímabilsins. „Það er meira öryggi yfir liðinu og ró. Það eru komin betri tök á varnarleiknum og því líst mér vel á þetta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×