Hver er að hlusta? Ólafur Þ. Stephensen skrifar 11. nóvember 2011 10:02 Lögreglan hefur beitt símahlerunum í mjög vaxandi mæli við rannsókn sakamála á undanförnum árum. Undanfarin tvö ár hafa dómstólar þannig kveðið upp rúmlega 170 úrskurði á ári sem heimila lögreglu að hlera síma fólks. Framan af þessu ári virðist þróunin sú sama. Sjálfsagt munar hér talsvert um rannsóknir embættis sérstaks saksóknara, sem fékk 72 sinnum heimild til símhlerana í fyrra. Símahleranir geta verið nauðsynlegt rannsóknarúrræði en mikilvægt er að beita því ekki of frjálslega, þar sem þær vega augljóslega að friðhelgi einkalífs. Ýmsir hafa þó áhyggjur af að á eftirlit með þeim skorti. Róbert Spanó, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, gagnrýndi skort á eftirliti með hlerununum í pistli sínum hér í blaðinu í byrjun mánaðarins. Hann benti á að ríkissaksóknari ætti að fylgjast með að lögreglustjórar sinntu þeirri skyldu sinni að tilkynna þeim sem væru hleraðir um það eins fljótt og verða mætti, en saksóknari hefði upplýst að því eftirliti væri lítið sinnt vegna fjárskorts. Róbert lagði sömuleiðis til að skoðað yrði hvort ástæða væri til að skipa sérstakan talsmann þess sem væri hleraður, líkt og tíðkast í Danmörku og Noregi. Vegna þess að enginn gætir hagsmuna þess sem sætir rannsókn eru dómsúrskurðir um símhleranir aldrei kærðir til Hæstaréttar. Aukinheldur liggja engar upplýsingar fyrir um hversu mörgum hleranabeiðnum dómstólar hafna. Þá taldi Róbert vafa leika á hvort við brotum sem sérstakur saksóknari rannsakaði lægi í öllum tilvikum nægilega þung refsing til að réttlæta að þessu rannsóknarúrræði væri beitt. Bogi Nilsson, fyrrverandi ríkissaksóknari, tók undir gagnrýnina í helgarblaði Fréttablaðsins. Það sama gerðu Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra í umræðum á Alþingi fyrr í vikunni. Ögmundur sagðist hafa vakið athygli ríkissaksóknara á málinu og daginn eftir gat Fréttablaðið sagt frá því að saksóknari hygðist nú efla eftirlitið og krefðist þess af dómstólum að fá afrit af öllum úrskurðum í hlerunarmálum, sama hvort hleranir væru samþykktar eða ekki. Í gær sagði Fréttablaðið síðan frá því að starfsmaður símafyrirtækis lægi undir grun um að hafa hlerað símtal í heimildarleysi. Það er ósannað hvort svo er, en einnig kom fram að ekkert ytra eftirlit væri með framkvæmd símahlerana hjá símafyrirtækjunum. Ásgeir Karlsson, yfirmaður greiningardeildar ríkislögreglustjóra, telur að nauðsynlegt sé að lögreglan athugi bakgrunn starfsmanna sem taki þátt í framkvæmd símahlerana. Almenningur verður að geta treyst því að lögregla beiti ekki símahlerunum nema rík ástæða sé til og grunur leiki á alvarlegum glæpum. Fólk verður sömuleiðis að geta treyst því að fjarskiptaleynd sé rækilega tryggð hjá símafyrirtækjunum. Það eru gagnkvæmir hagsmunir þeirra og viðskiptavinanna að meira eftirlit sé með þeim starfsmönnum sem taka þátt í að framkvæma hleranir. Síðast en ekki sízt hlýtur ríkissaksóknari að verða að gegna sínu lögbundna eftirliti með rannsóknum lögreglunnar. Þar geta menn ekki borið fyrir sig fjárskort. Ef lögreglan hefur mannskap til að hlera 170 manns á ári verður saksóknari að hafa mannskap til að hafa eftirlit með þeirri starfsemi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Lögreglan hefur beitt símahlerunum í mjög vaxandi mæli við rannsókn sakamála á undanförnum árum. Undanfarin tvö ár hafa dómstólar þannig kveðið upp rúmlega 170 úrskurði á ári sem heimila lögreglu að hlera síma fólks. Framan af þessu ári virðist þróunin sú sama. Sjálfsagt munar hér talsvert um rannsóknir embættis sérstaks saksóknara, sem fékk 72 sinnum heimild til símhlerana í fyrra. Símahleranir geta verið nauðsynlegt rannsóknarúrræði en mikilvægt er að beita því ekki of frjálslega, þar sem þær vega augljóslega að friðhelgi einkalífs. Ýmsir hafa þó áhyggjur af að á eftirlit með þeim skorti. Róbert Spanó, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, gagnrýndi skort á eftirliti með hlerununum í pistli sínum hér í blaðinu í byrjun mánaðarins. Hann benti á að ríkissaksóknari ætti að fylgjast með að lögreglustjórar sinntu þeirri skyldu sinni að tilkynna þeim sem væru hleraðir um það eins fljótt og verða mætti, en saksóknari hefði upplýst að því eftirliti væri lítið sinnt vegna fjárskorts. Róbert lagði sömuleiðis til að skoðað yrði hvort ástæða væri til að skipa sérstakan talsmann þess sem væri hleraður, líkt og tíðkast í Danmörku og Noregi. Vegna þess að enginn gætir hagsmuna þess sem sætir rannsókn eru dómsúrskurðir um símhleranir aldrei kærðir til Hæstaréttar. Aukinheldur liggja engar upplýsingar fyrir um hversu mörgum hleranabeiðnum dómstólar hafna. Þá taldi Róbert vafa leika á hvort við brotum sem sérstakur saksóknari rannsakaði lægi í öllum tilvikum nægilega þung refsing til að réttlæta að þessu rannsóknarúrræði væri beitt. Bogi Nilsson, fyrrverandi ríkissaksóknari, tók undir gagnrýnina í helgarblaði Fréttablaðsins. Það sama gerðu Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra í umræðum á Alþingi fyrr í vikunni. Ögmundur sagðist hafa vakið athygli ríkissaksóknara á málinu og daginn eftir gat Fréttablaðið sagt frá því að saksóknari hygðist nú efla eftirlitið og krefðist þess af dómstólum að fá afrit af öllum úrskurðum í hlerunarmálum, sama hvort hleranir væru samþykktar eða ekki. Í gær sagði Fréttablaðið síðan frá því að starfsmaður símafyrirtækis lægi undir grun um að hafa hlerað símtal í heimildarleysi. Það er ósannað hvort svo er, en einnig kom fram að ekkert ytra eftirlit væri með framkvæmd símahlerana hjá símafyrirtækjunum. Ásgeir Karlsson, yfirmaður greiningardeildar ríkislögreglustjóra, telur að nauðsynlegt sé að lögreglan athugi bakgrunn starfsmanna sem taki þátt í framkvæmd símahlerana. Almenningur verður að geta treyst því að lögregla beiti ekki símahlerunum nema rík ástæða sé til og grunur leiki á alvarlegum glæpum. Fólk verður sömuleiðis að geta treyst því að fjarskiptaleynd sé rækilega tryggð hjá símafyrirtækjunum. Það eru gagnkvæmir hagsmunir þeirra og viðskiptavinanna að meira eftirlit sé með þeim starfsmönnum sem taka þátt í að framkvæma hleranir. Síðast en ekki sízt hlýtur ríkissaksóknari að verða að gegna sínu lögbundna eftirliti með rannsóknum lögreglunnar. Þar geta menn ekki borið fyrir sig fjárskort. Ef lögreglan hefur mannskap til að hlera 170 manns á ári verður saksóknari að hafa mannskap til að hafa eftirlit með þeirri starfsemi.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun