Luciano Moggi, fyrrum framkvæmdarstjóri Juventus, var í kvöld dæmdur til fangelsisvistar í fimm ár og fjóra mánuði fyrir sinn þátt í hagræðingu úrslita leikja í ítölsku úrvalsdeildinni.
Juventus varð Ítalíumeistari árin 2005 og 2006 en titlarnir voru báðir teknir af félaginu vegna Calciopoli-hneykslisins svokallaða sem skók ítalska knattspyrnu fyrir fimm árum síðan. Juventus var einnig dæmt niður um deild.
Hann var einn sextán sem voru fundnir sekir í málinu en átta voru sýknaðir, eftir því sem kemur fram í ítölskum fjölmiðlum í kvöld.
Það var þegar búið að dæma Moggi í lífstíðarbann frá afskiptum af knattsprynu en hann var í kvöld fundinn sekur um svik og samsæri. Saksóknari fór fram á fimm ár og átta mánuði fangelsisdóm en lögfræðingur Moggi sagði að hann myndi áfrýja úrskurðinum.
Tveir fyrrum eigendur Fiorentina voru dæmdir í fimmtán mánaða fangelsi í kvöld, sem og Claudio Lotito, forseti Lazio. Leonardo Meani, fyrrum framkvæmdarstjóri AC Milan, fékk tólf mánaða dóm.
AC Milan, Fiorentina, Lazio og Reggina var einnig refsað í sama máli á sínum tíma með því að draga stig af liðunum. Forráðamenn Juventus vilja einnig meina að Inter eigi sinn þátt í hneykslinu.
