Brandon Cotton, stigahæsti leikmaður fyrstu þriggja umferða Iceland Express deildar karla í körfubolta, hefur verið leystur undan samningi hjá Snæfelli en hann hefur skorað 35,3 stig að meðaltali í leik það sem af er á tímabilinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Snæfelli.
Brandon Cotton skoraði 33, 38 og 35 stig í leikjunum þremur en hann gaf hinsvegar aðeins þrjár stoðsendingar samtals í þessum þremur leikjum. Hann var því með 19,3 skot á hverja stoðsendingu sem hann gaf í þessum þremur leikjum.
„Félagið er að vinna í því að finna leikstjórnanda fyrir liðið en Brandon kom til landsins sem slíkur leikmaður. Annað hefur komið á daginn og er félagið því að leita að þeirri bakvarðarstöðu. Vonast er til að það gerist á næstu dögum," segir í fréttatilkynningu frá Snæfelli.
Þar kemur líka fram að Snæfell hafi náð samkomulagi við körfuknattleiksdeild Hamars um félagaskipti fyrir leikmaninn og mun Cotton því leik með Hamar í 1. deildinni.
