Viðskipti innlent

Viðbótarkostnaður allt að 12 milljarðar

Viðbótarkostnaður við að grafa fyrirhugaða Suðurnesjalínu 2 í jörð í landi Voga getur orðið allt að tólf milljarðar króna. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Landsnet sendi frá sér fyrr í dag vegna kröfu sveitarfélagsins um að um að línan skuli grafin í jörð í landi Voga.



Í tilkynningu frá Landsneti kemur fram að gera verði þær kröfur að einstök sveitarfélög leggi ekki í krafti skipulagsvalds steina í götu lögbundinnar og skynsamlegrar uppbyggingar, en sveitarfélagið krefst þess að Suðvesturlína skuli lögð í jörð.



Þá segir einnig að viðbótarkostnaður við að grafa fyrirhugaða línu í í jörð yrði sex milljarðar króna og komi til fyrirhugaðrar tvöföldunar yrði kostnaðurinn tólf milljarðar króna.



Landsnet segir að óhjákvæmilegt sé við útfærslur á uppbyggingu flutningskerfisins að horfa til heildstæðra lausna óháð sveitarfélagamörkum. Eðli framkvæmda við grunnkerfi, líkt og meginflutningskerfið, er að það liggur um langan veg og oft um mörg sveitarfélög.



Hinir lögbundnu þættir sem taka verður tillit til við uppbyggingu kerfisins gilda þannig ekki eingöngu um ákvarðanatöku Landsnets, heldur verða sveitarfélög einnig að líta til þeirra þátta við sína ákvarðanatöku.



Því sé ekki mögulegt að byggja útfærslur alfarið á kröfum einstakra sveitarfélaga og verða mjög sterk rök að liggja til grundavallar ef víkja á frá þeirri samfélagslegu skyldu sem hvílir á Landsneti að byggja upp flutningskerfið á hagkvæman og öruggan hátt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×