Íslenski boltinn

Þórunn Helga: Ferðalögin vel þess virði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórunn Helga Jónsdóttir setur ekki löng ferðalög fyrir sig til að fá að spila með A-landsliði kvenna.

Þórunn Helga leikur með Vitoria de Santo Antao í Brasilíu og hefur þrisvar á þessu ári lagt á sig löng ferðalög til að koma til móts við landsliðið.

„Ferðalögin eru mjög löng en í þetta skiptið tók það mig tvo daga að koma hingað. En þetta vel þess virði að leggja það á sig til að fá að spila og æfa með stelpunum,“ sagði Þórunn Helga en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

„Þetta er nú í þriðja sinn sem ég ferðast til að hitta landsliðið á þessu ári. Fyrst til að fara á Algarve-mótið þar sem okkur gekk mjög vel og svo fyrir leikinn gegn Búlgaríu þar sem við unnum 6-0 sigur.“

„Svo unnum við mjög sterkan sigur á Noregi um helgina. Þetta er því allt þess virði, sérstaklega þegar svona vel gengur.“

„En við vitum einnig að ef við vinnum ekki Belgíu þá verður þessi sigur á Norðmönnum ekki jafn mikils virði. Það er því full einbeiting hjá leikmönnum fyrir leikinn gegn Belgíu.“

Í myndskeiðinu hér fyrir ofan er einnig rætt við Hólmfríði Magnúsdóttur og Fanndísi Friðriksdóttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×