Íslenski boltinn

Fotbollskanalen: Lars Lagerbäck er í viðræðum við KSÍ

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Lagerbäck.
Lars Lagerbäck. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sænski vefmiðillinn, Fotbollskanalen, hefur heimildir fyrir því að Lars Lagerbäck sé í viðræðum við íslenska knattspyrnusambandið um að taka við íslenska landsliðinu. Lagerbäck hitti forseta austurríska sambandsins í vikunni en síðan varð ekkert úr því að hann tæki við landsliði Austurríkis.

„Ég veit ekkert um Austurríki en það er annað knattsyrnusamband sem er á eftir honum. Það er eitthvað sem hann verður að segja frá sjálfur. Það sem ég veit er að hann vill endilega fara að þjálfa aftur hvort sem það er landslið eða félagslið,” sagði Lars-Åke Lagrell, forseti sænska knattspyrnusambandsins.

Lagrell segir að sænska knattspyrnusambandið muni ekki standa í vegi fyrir Lagerbäck vilji hann fara að vinna fyrir annað knattspyrnusamband.

„Okkar samkomulag er þannig að hann ræður þessu sjálfur og við getum ekkert hindrað hann í að fara. Ég vildi helst sjá hann á varamannabekknum hjá sænsku liði en við ráðum því ekki og við höfum átt mjög gott samstarf við hann," sagði Lagrell.

Lars Lagerbäck er 63 ára gamall og hefur þjálfað bæði sænska og nígeríska landsliðið. Hann hefur ekkert þjálfað síðan að hann hætti með Nígeríu eftir HM í Suður-Afríku árið 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×