Íslenski boltinn

Ólína: Búnar að hugsa um þennan leik lengi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir segir að leikmenn íslenska liðsins mæti vel undirbúnir til leiks gegn Noregi á Laugardalsvelli í dag.

Leikurinn við Noreg er liður í undankeppni EM 2013 og hefst klukkan 16.00. Noregur er stórveldi í kvennaboltanum og helsti keppinautur Íslands um sæti í úrslitakeppni EM.

„Við mætum mjög vel undirbúnar til leiks eins og alltaf. Við erum búnar að hugsa um þennan leik mjög lengi og höfum hagað undirbúningnum eftir því,“ sagði Ólína en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

„Siggi Raggi hefur verið duglegur að dæla í okkur upplýsingum og við vitum mikið um norska liðið. Sóknarmennirnir eru teknískir og fljótir og svo eru margir duglegir og öflugir leikmenn í liðinu sem hlaupa mikið.“

„Ef allt fer eftir plönum ætti þetta að verða baráttuleikur og vonandi tekst okkur að skora 1-2 mörk og vinna þær þannig. Við erum sterkar á heimavelli og það hjálpar okkur mikið.“

„Þetta er auðvitað afar mikilvægur leikur í leið okkar á EM en við verðum þá líka að klára hina leikina. En það er alveg ljóst að það mun auðvelda okkur mjög mikið að vinna þennan leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×