Íslenski boltinn

Katrín: Fólk á að mæta á völlinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
„Við spiluðum síðast saman í maí og erum orðnar mjög spenntar fyrir þessum leik,“ sagði Katrín Ómarsdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins, fyrir leikinn gegn Noregi í dag.

Leikurinn er liður í undankeppni EM 2013 og hefst á Laugardalsvelli klukkan 16.00. Noregur er stórveldi í kvennaboltanum og helsti keppinautur Íslands um sæti í úrslitakeppni EM.

„Það er aldrei leiðinlegt að mæta sterku liði eins og Noregi og er því tilhlökkunin mikil. Ég á von á hörkuleik og vonandi tekst okkur að halda boltanum vel innan liðsins,“ sagði Katrín en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

„Ég sá Noreg spila á HM í Þýskalandi í sumar og þá voru þær mikið í að spila háum boltum fram á völlinn. Vonandi náum við að halda boltanum niðri og þreyta þær aðeins.“

Katrín spilar á miðjunni í dag í fjarveru Eddu Garðarsdóttur sem á við meiðsli að stríða. „Það er ekki auðvelt að ætla sér að fylla í skarðið sem hún skilur eftir sig en ég reyni að leysa þau verkefni sem ég fæ með landsliðinu hverju sinni eins vel og ég get.“

Katrín mun ekki láta það á sig fá þó svo að það verði kalt og blautt á leiknum í dag. „Hefur það einhvern tímann skipt okkur máli? Ég held ekki. Við mætum bara til leiks, sama hvernig viðrar. Aðalmálið er að fólkið mæti á völlinn og hvet ég fólk til að koma í stað þess að horfa á leikinn í sjónvarpinu. Það skiptir máli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×