Íslenski boltinn

Drillo: Ótrúlegt að Ísland sé bara í 124. sæti á FIFA-listanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Egil "Drillo" Olsen.
Egil "Drillo" Olsen. Mynd/Anton
Íslenska landsliðið er neðar á FIFA-listanum en þjóðir eins og Færeyjar, Grenada, Liechtenstein og St. Kitts og Nevis. Það á Egil "Drillo" Olsen, þjálfari norska landsliðsins erfitt með að skilja. Noregur og Ísland mætast á Ullevaal í Osló á föstudagskvöldið og Drillo ræddi stöðu íslenska landsliðsins í viðtali við norska Dagblaðið.

„Við höfum oft átt í miklum vandræðum með Ísland en það á ekki bara við okkur. Ég sá báða leiki Íslendinga á móti Dönum. Danir skoruðu sigurmarkið í uppbótartíma og í fyrri hálfleik í leiknum á Íslandi þá var staðan 3-3 í færum. Danir skoruðu síðan mark með langskoti sem flestir markverðir hefðu tekið. Það eru enginn að rúlla íslenska liðinu upp og þó að þeir hafi tapað 0-4 í Ungverjaland þá var sá leikur jafn," sagði Egil "Drillo" Olsen og bætti við:

„Ísland er ein af þessum knattspyrnuþjóðum sem eru miklu betri en staða þeirra á FIFA-listanum segir til um. Það þeir séu númer 124 á meðan að Færeyjar eru númer 111 er ótrúlegt, sérstaklega ef maður skoðar hvar færeysku leikmennirnir eru að spila," sagði Drillo.

Egil "Drillo" Olsen hefur náð frábærum árangri eftir að hann tók aftur við norska landsliðinu en liðið hefur aðeins tapað 4 af 18 leikjum sínum undir hans stjórn (12 sigrar) og er komið alla leið upp í tólfta sæti á Styrkleikalista FIFA.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×